Monday, February 04, 2008

Heima með einn veikan

Fyrsti vinnudagurinn á föstudaginn eftir fæðingarorlof part 1. Vildi svo skemmtilega til að ég var á námskeiði á föstudag og reyndar laugardag líka, klára verkefnastjórnunarnámskeið. Átti svo að vera fyrsti "venjulegi" vinnudagurinn í dag. Kom einn lítill uppí í nótt með yfir 40°C hita og gat varla kyngt greyið. Hann er því heima í dag og ég líka. Fer með Ástþór til læknis í dag klukkan 13 til að tékka á streptókokka sýkingu. Arnaldur fer svo til læknis klukkan 15 í vigtun og mælingu svo það er nóg að gera í heilbrigðismálum á heimilinu.
Venjulegur vinnudagur verður því að bíða um stund, það er svo sem sársaukalaust að minni hálfu, hefði vel verið til í að taka mér lengra fæðingarorlof í beit, en átti ekki hægt um vik sökum vinnu!! Maður verður þá bara að halda áfram með fimmta fjallið hans Coelho. Keypti mér slatta af gömlum bókum með Paulo Coelho og er hálfnaður með staflann. Hef glettilega gaman að karlinum verð ég að segja. Var búinn að lesa allar nýrri bækurnar hans og þær frægari en átti gömlu eftir og er að vinna bót á því.

Thursday, January 24, 2008

In to the wild

Verð að viðurkenna að ég hef aldrei náð af mér aðdáun minni á Eðvarði Vernharðssyni (Eddie Vedder). Byrjaði að sjálfsögðu eins og hjá öllum sem á hann hlíða með Ten plötunni, vs kom þar á eftir, Vitology etc. Margar af þeim síðustu hafa verið mistækar en eðal sprettir á þeim öllum. Núna hinsvegar er kappinn með sóló plötu sem heitir "Into the Wild". Um er að ræða kvikmynda tónlist við nýjustu mynd Sean Penn. Myndin er um afburðar nemanda og Elite Athlete sem útskrifast, gefur spariféð sitt, 24þúsund dollara til góðgerðarmála og brennir peningana í veskinu sínu. Röltir svo að stað inn í óbyggðirnar og finnst að endingu í Alaska byrjaður að rotna blessaður karlinn. Hef ekki séð þessa mynd enn, (er ekki í kvikmynda downloadi) en eftir að hafa hlítt á tónlistina tel ég að hún passi þessari mynd afbrags vel og mig dauðlagnar að sjá myndina. Penninn er heldur ekki vanur að klikka að mínu mati með sínar myndir. Diskurinn hans Vedders er afbragð að mínu mati (sem er undantekningalaus rétt mat, leyfi stundum öðrum að halda að þeir hafi rétt fyrir sér þó!).
Mæli með að menn kynni sér málið!

Monday, January 21, 2008

Verkefnastjórnun

Tíminn líður og þegar maður er í frí, því miður of hratt. Núna eru bara 10 dagar eftir af fríinu mínu (fæðingarorlofi) Spurning um að taka bara mars í frí líka, er svo ljómandi ljúft. Skrapp þó á námskeið í vinnunni um daginn. Um er að ræða verkefnastjórnunarnámskeið haldið í HR. Þetta reyndist hið besta námskeið, er raunar bara hálfnað, seinni hlutinn í byrjun febrúar. Þetta námskeið er keyrt á fjórun dögum, tveimur hálfum og tveimur heilum og er farið yfir sama efni og í þriggja eininga kúrs í HR. Var háskólinn bara dútl?? Það er spurningin. Litli snúðurinn minn ótrúlega vær enn sem komið er, ekki kominn með nafn enn en vonandi bráðlega. Stóri snúðurinn minn líka voða góður og hrifinn af bróður sínum. En það veður skrítið að byrja að vinna aftur, spurning um að vinna bara stórt í happdrætti og taka sér frí í nokkur ár, væri það ekki bara málið??

Friday, January 11, 2008

Af stað í laugar en ekki á laugardag þó

Ég var mjög duglegur í ræktinni fyrri part árs í fyrra, mætti yfirleitt um klukkan 6 á morgnana og tók á því fór svo heim og kom fólkinu á stjá og í leikskóla áður en maður rúllaði á fjallið. Svo eftir sumarfríið datt svoltið botninn úr þessu, ég bara get ekki vaknað svona snemma á sumrin, ekkert mál á veturnar en ekki séns á sumrin. Leikfimin hefur því meira einskorðast við helgar frá sumarfríinu og ekkert síðan í lok oktober þar sem byrjaði "fullorðin" vinnutörn, 12 tíma plús á dag.
En núna fór ég og keypti nýtt árskort tók hring og allir kátir, í raun ótrúlega ljúft að vera byrjaður aftur.

Wednesday, January 09, 2008

Fæðingarorlof

Þá eru erfingjarnir orðnir tveir og er það vel.
Lengi verið haldið fram í gríni í vinnunni, að eina leiðin til að fá frí væri að eignast barn og hef ég sannreynt að svo sé. Ótrúlega næs að vera ekki í einhverju tíma stressi og rugli, bara heima að dúllast með fjölskyldunni. Reyndar er nú vinnan ekki lagnt undan og maður þarf að redda hinu og þessu en det er nu det. Búin að vera fín jól og áramót allt farið fallega fram og tími til kominn að taka niður skraut og skreytingar þó svo að Ástþór Örn hafi sótt um framlengingu jólanna um nokkra daga þar sem hann gat ekki hugsað sér að jólatréð yrði tekið niður.
Svo er næsta mál á dagskrá að skella sé í nærbuxurnar utanyfir og þá náttúrulega breytast í ofurhetju og mun ég berjast við þessi helvítis drengjafífl sem eru enn að skjóta upp rakettum. Djöfull er þetta farið að pirra mig, endalausir hvellir og smá ljós tuðrur. Ef menn ætla að vera skjóta upp rakettum skul þær vera stóra og öflugar og fljúga hátt, þessar smá druslur eru bara hávaði og leiðindi og ætti að banna.

Saturday, April 28, 2007

Og ekki dauður enn, en djöfull nálægt

Ekki eru þau mörg skrifin á vef veraldar og er það einkum sökum þess að þegar maður kemur heim á daginn eftir vinnu er maður kominn með króníst ógeð á þessum verkfærum er nafið tölvur bera.  Síðan síðast þá hef ég afrekað að eiga eitt stykki afmæli, frúin einnig, farið á Þinvelli, í gögnuferðir og margt fleira.  Ræktin í Laugunum kemur sterk inn, maður reynir að mæta þar kl 6 á morgnana a.m.k. tvisvar í viku og svo um helgar á aðeins siðlegri tíma.  Svona er þetta, stöðug gleði, stöðugt fjör, hvað vill maður meira.

Wednesday, March 07, 2007

Upp og niður possan

Ótrúlega gefandi að sitja heima með gang er við upp og niður er kendur, spilar þar postulínið stóra rullu.  Svanhildur svo í París með foreldrum sínum og við Ástþór Örn því að gæta bús og barna.  En þá er það bara coka cola og ristað brauð og málið dautt!  Grrrrr!